• Einstaklingar

  • Pör/hjón

  • Fjölskyldur

Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð er gagnreynt meðferðarúrræði þar sem tekið er mið af fjölskyldunni sem heild. Áhersla er lögð á heildarvelferð fjölskyldunnar, að vandi einstaklings hafi áhrif á alla fjölskylduna og að fjölskyldan hafi áhrif á einstaklinginn.

Fjölskyldumeðferð getur verið unnin með einstaklingum, pörum/hjónum, fjölskyldum í heild eða að hluta, kjarnafjölskyldum eða samsettum fjölskyldum. Metið er hverjir taka beinan þátt í meðferðarvinnu eftir þörfum hverrar fjölskyldu og aðstæðum hverju sinni.

Meðal annars er unnið með samskipti, tengsl, kynslóðatilfærslur, tengslaáföll, vanvirkar fjölskylduaðstæður, hlutverk innan fjölskyldna, lífsskeið fjölskyldunnar, andleg og/eða líkamleg veikindi, sorgarferli, breytt fjölskyldumynstur, foreldrahlutverkið, meðvirkni, sjálfsvirði, stuðning við aðstandendur og afleiðingar ofbeldis.

Áfallameðferð

NET (narrative exposure therapy) er samkenndarmiðuð, gagnreynd aðferð við úrvinnslu áfalla. NET hefur reynst vel við úrvinnslu flókinnar áfallastreituröskunnar (complex PTSD). Flókin áfallasaga stafar af röð áfalla sem tengjast erfiðri reynslu, aðstæðum, samskiptum og tengslum. Algengt er að vinna með kynslóðaáföll, áföll úr æsku og hvers kyns afleiðingar ofbeldis og vanrækslu.

Meðferðin byggir á því að raða brotakenndum minningum í heildstæða frásögn af lífssögu hvers einstaklings, með áherslu á áfallaupplifanir. Aðferðin krefst þess ekki að velja eitt áhersluáfall, heldur er unnið með tímalínu áfallaupplifana sem og annarra atburða, neikvæðra og jákvæðra sem hafa haft djúpstæð áhrif á einstaklinginn í gegnum lífið. Þannig er unnið að heildstæðri lífsfrásögn, aukinni seiglu, sjálfsvirði og öryggi.

Boðið er upp á stað- eða fjarviðtöl. Viðtöl á staðnum fara fram í Skeifunni 19, 3. hæð og fjarviðtöl í gegnum Kara connect, fjarfundabúnað sem tryggir öryggi persónuupplýsinga. Fyllsta trúnaðar er gætt, samkvæmt lögum og siðareglum. Meðferð er veitt í samræmi við siðareglur fjölskyldufræðinga og meðferð gagna er í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.